Viðskipti erlent

Lækkun atvinnuleysis skýrist ekki af fjölgun starfa

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sú 0,1% lækkun sem varð á atvinnuleysi í janúar skýrist ekki af fjölgun starfa, eftir því sem fram kemur í Morgunkorni Íslandsbanka. Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar sem birtust i gær mældist atvinnuleysi í janúar 7,2%. Þetta er í neðri mörkum þess bils sem Vinnumálastofnun hafði reiknað með að það yrði í mánuðinum.

Greining Íslandsbanka segir að lækkun atvinnuleysisins skýrist einna helst af tvennu. Annars vegar halda flestir þeirra 900 einstaklinga sem tóku þátt í námsátakinu „Nám er vinnandi vegur" áfram námi nú í vor og fóru því af skrá um síðustu áramót. Í annan stað rann bráðabirgðaákvæði um minnkað starfshlutfall út um síðustu áramót og í kjölfarið fóru um 500 manns af skrá sem höfðu fengið greiddar bætur með hlutastarfi.

Greining Íslandsbanka segir þó óhætt að segja að staðan sé mun betri en hún hafi verið í janúar í fyrra, en þá hafi skráð atvinnuleysi verið 8,5%, og fyrir tveimur árum síðan þegar skráð atvinnuleysi mældist 9,0% í janúarmánuði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×