

Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, segir eðlilegt að starf samráðshóps um fjármálastöðugleika hafi starfað leynt. "Allur kvittur um að stjórnvöld hefðu ekki trú á tilteknum banka gat umsvifalaust haft þau áhrif að áhlaup yrði gert á banka,‟ sagði Björgvin fyrir Landsdómi í morgun. Hann bætti því við að menn hefðu óttast áhlaup sem enginn banki gæti staðist.
Íslensk stjórnvöld tóku Icesave-vandann mjög alvarlega, af því að hann ógnaði stöðugleika á viðkvæmum tímum,” sagði Björgvin G. Sigurðsson í vitnaleiðslum fyrir Landsdómi nú skömmu fyrir hádegið. Hann sagði að vandinn hefði oft verið ræddur. Í huga Geirs Haarde hafi aldrei komið til greina að Ísland tæki á sig ábyrgð á reikningum sem íslensk yfirvöld tóku engan þátt í að stofna.
Halldór Ásgrímsson, þáverandi forsætisráðherra, hringdi í Davíð Oddsson, þáverandi seðlabankastjóra, á laugardegi sumarið 2006 vegna áhyggna bankastjóra viðskiptabankanna af því að bankarnir yrðu komnir á hausinn tveimur dögum seinna. Davíð greindi frá þessu í Landsdómi í dag.
"Þarna var dauðvona krabbameinssjúklingur að fá hjartaáfall" sagði Arnór um fall bankanna þegar hann bar vitni fyrir Landsdómi nú eftir hádegið. Hann sagði að lausafjárvandi banakanna væri eins og hjartaáfall en eiginfjárvandi eins og krabbamein fyrir banka.
"Icesave reikningarnir hefðu aldrei haft neinn tilgang fyrir bankana ef þeir hefðu verið í dótturfélagi,” sagði Arnór Sighvatsson, fyrrverandi aðalhagfræðingur Seðlabankans, fyrir Landsdómi í dag.
Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, segist alls ekki hafa fengið minni upplýsingar en aðrir um starf samráðshóps um fjármálastöðugleika. Sigríður Friðjónsdóttir saksóknari sagði að upp hefðu komið ásakanir um að hann hefði verið lausmáll og spurði hvort það gæti hafa orsakað að hann hefði fengið minni upplýsingar en aðrir ráðherrar um starf hópsins.
Drög að frumvarpi um neyðarlög voru kynnt í viðskiptaráðuneytinu 9. maí 2008, sagði Björgvin. G. Sigurðsson viðskiptaráðherra fyrir Landsdómi í dag. Frumvarpið var undirbúið fyrir tilstuðlan samráðshóps um fjármálastöðugleika.
Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, segist hafa haft áhyggjur af stöðu bankanna löngu áður en komið var fram á árið 2008. Ekki hafi allir verið sammála honum í fyrstu. Hann sagði að það sem hefði meðal annars valdið áhyggjum hans hafi verið hvernig fyrirtæki hafi verið keypt upp á ógnarhraða, fyrirtæki rekin ár eftir ár án þess að nokkur sýnilegur hagnaður væri af starfsemi þeirra og of mikið gert úr viðskiptavild þegar eignarstaða fyrirtækja var bókfærð.