Fótbolti

Nóg um að vera í Lengjubikarnum um helgina | Doninger með þrennu fyrir ÍA

Stefán Árni Pálsson skrifar
Mark Doninger
Mark Doninger Mynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson
Sjö leikjum er lokið um helgina í Lengjubikar karla í knattspyrnu en nú fer að styttast í að Pepsi-deildin hefjist og því fróðlegt að fylgjast með liðunum.

KA og Víkingur R. gerðu markalaust jafntefli í Boganum á Akureyri í heldur tíðindalitlum leik í gær.

Höttur sigraði Fjölni 4-3 í Fjarðarbyggðarhöllinni í gær en Höttur komst í 3-0 þegar Fjölnir vaknaði til lífsins og svaraði örlítið fyrir sig.

Haukar unnu fínan sigur,1-0, gegn Selfyssingum en leikurinn fór fram í Kórnum í gær. Hilmar Trausti Arnarsson skoraði eina mark leiksins.

Valsmenn rústuðu Þór frá Akureyri, 4-0, í Boganum á Akureyri í gær. Rúnar Már Sigurjónsson skoraði tvö mörk fyrir Val. Atli Heimisson og Ásgeir Þór Ingólfsson gerðu sitt markið hvor.

Skagamenn rúlluðu yfir ÍR, 4-1, í gærkvöldi en leikurinn fór fram í Egilshöllinni. Mark Doninger gerði þrennu fyrir ÍA í leiknum og átti frábæran leik. Gary Martin skoraði einni eitt fyrir Skagamenn.

Grindvíkingar unnu frábæran sigur gegn Fylki, 4-1, í Reykjaneshöllinni í dag. Pape Mamadou Faye gerði fyrsta mark leiksins fyrir Grindavík en Ingimundur Níels Óskarsson jafnaði fyrir Fylki. Scott Ramsey, Alexander Magnússon og Magnús Björgvinsson gerðu síðan næstu mörk Grindvíkinga og öruggur sigur þeirra gulu staðreynd.

Keflvíkingar unnu fínan sigur á Eyjamönnum, 3-1, í Reykjaneshöllinni í dag. Guðmundur Steinarsson kom Keflvíkingum yfir strax í byrjun leiks en Ian Jeffs jafnaði fyrir ÍBV. Arnór Ingvi Traustason og Sigurbergur Elísson gerði tvö næstu mörk Keflvíkinga.

Upplýsingar um markaskorara fengnar frá vefsíðunni fotbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×