Jeremy Lin, leikstjórnandi NBA liðsins New York Knicks, var óþekkt nafn í heiminum fyrir aðeins nokkrum vikum. Það hefur heldur betur breyst eftir að nýliðinn kom inn í NBA deildina með þvílíkum látum sem varaskeifa hjá New York Knicks. Lin er sjóðheitt „vörumerki" og hann hefur nú landað risaauglýsingasamningi hjá bifreiðaframleiðslufyrirtækinu Volvo.
Volvo var keypt af kínverska bílaframleiðandanum Geely fyrir tveimur árum. Ætlunin er að nota Lin til þess að markaðssetja vörur Volvo í Kína, Asíu og Bandaríkjunum m.a. Samningurinn er til tveggja ára. Lin, sem er ættaður frá Taívan hefur einnig gert samning við íþróttavörufyrirtækið Nike. Verðmæti þessara samninga er töluvert en ekki hafa fengið nánari upplýsingar um upphæðirnar sem um er að ræða.
Vinsældir NBA körfuboltans í Asíu hefur vaxið gríðarlega og NBA leikmenn geta haft vel upp úr því að gera auglýsingasaminga. Fyrir skömmu gerði LeBron James, leikmaður Miami Heat, samning um að auglýsa kleinuhringi og ís fyrir fyrirtæki sem ætla að herja á Asíumarkað með sínar vörur.
Fyrsta auglýsingin þar sem Lin mun birtast hjá Volvo verður birt í júní.
Körfubolti