Handbolti

Króatar rúlluðu yfir Japana í seinni hálfleik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Igor Vori, línumaðurinn sterki, í leik Króatíu og Íslands á EM í janúar.
Igor Vori, línumaðurinn sterki, í leik Króatíu og Íslands á EM í janúar. Nordic Photos / AFP
Króatía vann öruggan sigur á Japan, 36-22, í fyrsta leik forkeppninnar fyrir Ólympíuleikana í Lundúnum eftir að hafa verið aðeins tveimur mörkum yfir í hálfleik.

Ísland og Síle eru í sama riðli og eigast við klukkan 18.15 í dag. Fyrirfram eru lið Síle og Japans talin lakari en hin en Japanar sýndu þó að þeir geta vel strítt hinum liðunum, á köflum að minnsta kosti.

Króatar byrjuðu mun betur og komust í 9-3 forystu. Japanir neituðu þó að gefast upp, komu sér inn í leikinn og skoruðu á endanum átta af síðustu tólf mörkum fyrri hálfleiksins. Fyrir vikið náðu þeir að minnka muninn í tvö mörk en staðan var 16-14, Króatíu í vil, þegar flautað var til hálfleiks.

Leikmenn Króatíu fengu greinilega orð í eyra frá þjálfara sínum í leikhlénu því þeir skoruðu fyrstu fjögur mörk seinni hálfleiksins og stungu þá japönsku einfaldlega af - eins og lokatölurnar gefa til kynna.

Króatía mun svo væntanlega tryggja sér svo sæti á Ólympíuleikunum með sigri á Síle á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×