Handbolti

Kiel enn með fullt hús stiga

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alfreð Gíslason.
Alfreð Gíslason. Nordic Photos / Getty Images
Fimm leikir fóru fram í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld og er Kiel enn á toppi deildarinnar með fullt hús stiga.

Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar í Kiel hafa nú spilað 28 leiki á tímabilinu og unnið þá alla. Þeir eru því aðeins sex leikjum frá fullkomnu tímabili í sterkustu deildarkeppni heims. Aron Pálmarsson var ekki í leikmannahópi Kiel í dag.

Füchse Berlin er í þriðja sæti deildarinnar en liðið hafði betur gegn Bergischer HC á heimavelli í kvöld, 35-27. Alexander Petersson skoraði fimm mörk fyrir Berlínarliðið og Rúnar Kárason fyrir Bergischer.

Bergischer er í sextánda sæti deildarinnar með fimmtán stig - fjórum stigum frá öruggu sæti.

Flensburg er í öðru sæti deildarinnar, einu stigi á undan Füchse Berlin, en liðið hafði betur gegn Gummersbach á útivelli, 32-30.

Í fimmta sætinu er Rhein-Neckar Löwen en liðið vann öruggan útisigur á botnliði Eintracht Hildesheim, 38-25. Róbert Gunnarsson skoraði fjögur mörk fyrir Löwen.

Magdeburg, sem er í sjötta sætinu, vann Grosswallstadt á heimavelli í kvöld, 27-21. Einar Hólmgeirsson var ekki í leikmannahópi Magdeburg að þessu sinni en Sverre Andreas Jakobsson stóð vaktina í vörn Grosswallstadt. Björgvin Páll Gústavsson sat á bekknum hjá Magdeburg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×