Fótbolti

Hvers vegna bendir Ronaldo á lærið á sér þegar hann fagnar?

Cristiano Ronaldo hefur skorað 40 mörk á leiktíðinni fyrir Real Madrid í spænska fótboltanum – einu meira en Argentínumaðurinn Lionel Messi hjá Barcelona. Portúgalinn Ronaldo skoraði þrennu í 4-1 sigri Real Madrid í grannaslagnum gegn Atlético Madrid þar sem að annað mark hans í leiknum var stórkostlegt. Fögnuður Ronaldo eftir það mark vakti einnig athygli en þar dróg hann upp aðra skálmina á stuttbuxunum og benti á olíuborinn lærvöðvann á hægri fæti.

Samkvæmt spænskum fjölmiðlum er Ronaldo að svara „glósum" frá liðsfélaga sínum Antonio Adán varamarkverði Real Madrid. Adán á að hafa sagt við Ronaldo að hann þyrfti að einbeita sér meira að styrktaræfingum fyrir fæturna – þar sem að allur tími Ronaldo í lyftingasalnum færi í „strandæfingar" fyrir efri hlutann.

Ronaldo hefur farið á kostum í vetur með Real Madrid. Hann hefur skorað 20 mörk á útivelli og er hann sá fyrsti sem nær þeim áfanga í deildarkeppninni á Spáni. Hann er einnig sá fyrsti sem skorar sjö þrennur á sama tímabilinu.

Real Madrid er með fjögurra stiga forskot á Barcelona í deildarkeppninni fyrir lokasprettinn. Liðin eigast við þann 21. apríl á heimavelli Barcelona. Á laugardaginn leikur Barcelona á útivelli gegn Levante sem er í fimmta sæti deildarinnar. Real Madrid á leik á heimavelli gegn Sporting Gijón sem er í þriðja neðsta sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×