Handbolti

AG fór létt með Barcelona á Parken

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðjón Valur skoraði fjögur mörk fyrir AG í kvöld.
Guðjón Valur skoraði fjögur mörk fyrir AG í kvöld. Mynd / AP
21 þúsund áhorfendur fylgdust með viðureign AG og Barcelona í fjórðungsúrslitum Meistaradeildar Evrópu. Dönsku meistararnir áttu frábæran leik og unnu, 29-23. Aðsóknarmett var sett á Parken í kvöld en öll umgjörð leiksins var glæsileg.

Stórskyttan Mikkel Hansen og markvörðurinn Kasper Hvidt fóru á kostum í leiknum. Hansen skoraði átta mörk og Hvidt varði á köflum glæsilega í leiknum.

Hvidt lét þó skapið hlaupa með sig í gönur því hann fékk að líta rauða spjaldið á lokamínútu leiksins þegar hann ýtti við danska landsliðsmanninum Jesper Nöddesbo, leikmanni Barcelona.

Allir fjórir Íslendingarnir komust á blað í leiknum og spiluðu mjög vel, eins og allir í liði AG. Guðjón Valur Sigurðsson skoraði fjögur mörk, Ólafur Stefánsson og Arnór Atlason þrjú mörk hvor og Snorri Steinn Guðjónsson eitt.

AG byrjaði vel og skoraði fyrstu þrjú mörk leiksins. Barcelona jafnaði en undir lok hálfleiksins náðu heimamenn að síga fram úr á ný. Staðan í hálfleik var 16-11.

Börsungar náðu aldrei að ógna forystu AG að nokkru ráði í seinni hálfleik. Gestirnir skoruðu þó tvö mörk undir lokin og minnkuðu muninn í fimm mörk en Guðjón Valur skoraði síðasta mark leiksins á lokasekúndunum og sá til þess að AG fer með sex marka forystu í seinni leikinn.

Liðin mætast í síðari leiknum í Barcelona á laugardaginn um næstu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×