Handbolti

Dominik Klein: Besta tilfinningin á ferlinum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þýski hornamaðurinn Dominik Klein var greinilega stoltur og hrærður yfir árangri Kiel sem varð í dag Evrópumeistari í handbolta eftir sigur á Atletico Madrid í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu.

„Þetta var ótrúlegt, sérstaklega þar sem þessi helgi er svo erfið. Á 24 klukkstundum þarf maður að spila tvo leiki gegn þeim bestu í heimi og vinna þá báða," sagði Klein en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.

„Og nú erum við þeir bestu. Maður leyfði sér að dreyma um einn titil fyrir tímabilið en nú erum við komnir með þrjá. Þetta er besta tilfinning sem ég hef upplifað á ferlinum."

Alfreð Gíslason er þjálfari Kiel og Aron Pálmarsson leikur með liðinu. En Klein bendir á að það sé ekki eina Íslandstengingin við Kiel þessa stundina.

„Við erum ekki aðeins með tvo íslenska leikmenn því núna er Icelandair með auglýsingu á bolnum hans Alfreðs. Það var skemmtilegt."

„En það sást vel hvernig Alfreð leið þegar hann fékk styttuna í hendurnar. Við erum allir hluti af besta liði í heimi og er ég afar stoltur af því."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×