Hafþór Júlíus Björnsson varð um helgina Sterkasti maður Íslands en keppt var í Grindavík. Níu keppendur skráðu sig til leiks en Hafþór hafði töluverða yfirburði og sigraði í sex keppnisgreinum af átta.
„Ég hef aldrei verið í betra formi og ég var ánægður með hvernig til tókst. Þetta er frábært mót hér í Grindavík, umgjörðin til fyrirmyndar og veðrið var auðvitað alveg með ólíkindum. Þetta er góður undirbúningur fyrir Evrópukraftamót sem ég fer í núna síðar í þessum mánuði," sagði Hafþór Júlíus sem er tveir metrar á hæð og 193 kg.
Í öðru sæti varð Ari Gunnarsson og í því þriðja Páll Logason. Keppt var í hefðbundnum kraftagreinum eins og t.d. bóndagöngu, sirkuslyftu, trukkadrætti, atlassteinatökum og svo nýrri sjómannagrein, bryggjupollaburði.
