Handbolti

Rúmenía bættist í riðil Íslands

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron Pálmarsson í leiknum gegn Hollandi í gær.
Aron Pálmarsson í leiknum gegn Hollandi í gær. Mynd/Daníel
Forkeppni EM 2014 í handbolta lauk um helgina og kom þá í ljós hvaða lið verður ásamt Slóveníu og Hvíta-Rússlandi andstæðingur Íslands í undankeppninni sem hefst í haust.

Rúmenía hefur nú bæst í þennan hóp en upphaflega var dregið í riðlana í lok aprílmánaðar. Rúmenía bar sigur úr býtum í sínum riðli í forkeppninni og því ljóst að strákarnir okkar þurfa að fara í þrjú löng ferðalög yfir til austurhluta Evrópu í riðlakeppninni.

Rúmenía var í riðli með Ísrael, Belgíu og Írlandi. Keppt var í Ísrael og hafði Rúmenía betur í hörkuleik gegn heimamönnum í gær, 26-25, sem dugði til að tryggja sigur í riðlinum. Bæði lið höfðu þá unnið báða leiki sína og dugði árangurinn Ísrael til að komast einnig áfram.

Tvö lið komast áfram úr undankeppni EM 2014 og fyrirfram teljast Ísland og Slóvenía líklegust til að komast áfram, þó svo að Hvít-Rússar gætu komið á óvart. Rúmenar eru svo með ríka handboltasögu og sterkan heimavöll.


Tengdar fréttir

Ísland í riðli með Slóveníu og Hvíta-Rússlandi

Ísland verður í sterkum riðli í undankeppni Evrópumeistaramótsins í Danmörku sem hefst nú í haust. Strákaranir okkar verða í riðli með Slóveníu, Hvíta-Rússlandi og einu liði úr forkeppninni sem fer fram í júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×