Fótbolti

Belgísku stelpurnar tóku toppsætið af Íslandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Vilhelm
Belgía komst aftur í efsta sætið í riðli Íslands í undankeppni EM kvenna í fótbolta eftir 3-1 útisigur á Ungverjalandi í dag. Belgía er með einu stigi meira en Ísland en íslensku stelpurnar geta endurheimt toppsætið með sigri í Búlgaríu á morgun.

Lien Mermans kom Belgíu í 1-0 á 13. mínútu en Anett Nagy jafnaði fyrir Ungverjaland aðeins sex mínútum síðar. Janice Cayman kom Belgíu aftur yfir á 65. mínútu og varamaðurinn Annaelle Wiard innsiglaði síðan sigurinn á 77. mínútu.

Íslenska landsliðið vann 3-0 sigur á Ungverjalandi á Laugardalsvellinum á laugardaginn var en sá sigur skilaði liðinu í efsta sæti riðilsins. Ungverjaland hefur aðeins náð í 7 stig í fyrstu 9 leikjum sínum í riðlinum en Ísland vann nauman 1-0 sigur í Ungverjalandi á síðasta ári.

Þetta var fyrsti leikur belgísku stelpnanna síðan að þær unnu 1-0 heimasigur á Íslandi í apríl en Belgía á eftir að mæta Noregi og Norður-Írlandi í tveimur síðustu leikjum sínum í riðlinum og eru báðir leikirnir á útivelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×