Tónlist

Söngfuglarnir í Hamrahlíð frumflytja íslenskar tónsmíðar

BBI skrifar
Hamrahlíðarkórinn í ár.
Hamrahlíðarkórinn í ár.
Hamrahlíðarkórinn frumflytur nýjar útsetningar Hafliða Hallgrímssonar á íslensku þjóðlögunum Móðir mín í kví, kví og Bí, bí og blaka á tónleikum í Háteigskirkju í kvöld klukkan átta. Hafliði lauk við þessar útsetningar nú í vor og tileinkar þær Þorgerði og „söngfuglunum í Hamrahlíð".

Í Hamrahlíðinni eru tveir kórar, annars vegar Kór Menntaskólans við Hamrahlíð sem var stofnaður árið 1967, hins vegar Hamrahlíðakórinn sem er framhaldskór skipaður söngfólki sem áður hefur verið í menntaskólakórnum. Sá var stofnaður árið 1982 og hefur Þorgerður Ingólfsdóttir stjórnað báðum kórunum frá upphafi.

Hamrahlíðarkórinn er á leið á Europa Cantat XVIII sem er nú haldin á Ítalíu í fyrsta sinn. Hátíðin verður í borginni Torino dagana 27. júlí til 5. ágúst. Allir tónleikar Hamrahlíðarkórsins á hátíðinni verða helgaðir íslenskri kórtónlist. Hamrahlíðarkórinn er í sumar skipaður 60 kórsöngvurum á aldrinum 17-22 ára.

Á tónleikunum í Háteigskirkju flytur kórinn hluta af þeim efnisskrám sem fluttar verða á Ítalíu, tónverk eftir m.a. Jón Nordal, Þorkel Sigurbjörnsson, Atla Heimi Sveinsson, Mist Þorkelsdóttur, Kolbein Bjarnason og Huga Guðmundsson auk þjóðlagaútsetninga Hafliða Hallgrímssonar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×