Handbolti

Svíar leita svara vegna árangurs íslenska landsliðsins

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Valli
Vefmiðill sænska dagsblaðsins Aftonbladet fjallar í dag um ótrúlega velgengni íslenska karlalandsliðsins í handbolta. Ísland mætir Svíþjóð í kvöld í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna.

Í greininni er fjallað um þá ótrúlegu staðreynd að þjóð með 320 þúsund íbúa hafi unnið silfurverðlaun á Ólympíuleikunum fyrir fjórum árum og brons á Evrópumótinu 2010.

Minnst er á þá staðreynd að Íslendingar þjálfi þrjú af fimm sterkustu handknattleiksfélögum Þýskalands. Þar er átt við þá Alfreð Gíslason hjá Kiel, Dag Sigurðsson hjá Fusche Berlín og Guðmund Þórð Guðmundsson hjá Rhein-Neckar Löwen.

Rætt er við Íslendinginn Kristján Andrésson, þjálfara Guif í efstu deild sænska handboltans. Hann minnir meðal annars á þá staðreynd að leitað hafi verið í smiðju þjálfara í Austur-Evrópu á 8. og 9. áratugnum sem hafi reynst þjóðinni vel.

Kristján kemur einnig inn á þá staðreynd hve Íslendingar hafi í raun mörg íþróttahús miðað við iðkendafjölda. Aðstaðan er því ekki vandamál.

Þá er vitnað í Stefan Rehn, fyrrum landsliðsmann Svía í knattspyrnu og nú þjálfara, sem þekkir vel til íslenskra knattspyrnumanna og þeirra hugarfars.

„Þú getur rekið hníf í bakið á Íslendingunum en þeir halda áfram að hlaupa," er haft eftir Rehn og handboltakempan Stefan Lövgren segir framgöngu íslenska landsliðsins hreint út sagt óskiljanlega.



Greinina í heild sinni má sjá hér.


Leikur Íslands og Svíþjóðar í A-riðli handknattleikskeppni Ólympíuleikanna hefst klukkan 20.15. Leikurinn verður í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×