Körfubolti

Lakers steinlá í fyrsta leik Steve Nash

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Metta World Peace og Steve Nash.
Metta World Peace og Steve Nash. Mynd/Nordic Photos/Getty
Það er búist við miklu af Los Angeles Lakers í NBA-deildinni í körfubolta í vetur enda liðið búið að fá til sín stórstjörnur á borð við Dwight Howard og Steve Nash. Allir nema Howard voru með í nótt en það kom þó ekki í veg fyrir að liðið steinlá á móti Golden State Warriors.

Golden State Warriors vann leikinn 110-83 en þetta var fyrsti undirbúningsleikur beggja liða. Miami Heat tapaði einnig sínum fyrsta leik á undirbúningstímabilinu en liðið lá 79-92 á móti Atlanta Hawks í gær.

Kobe Bryant, Metta World Peace og Jordan Hill skoruðu allir tíu stig fyrir Lakers-liðið en Steve Nash var bara með 5 stig og 3 stoðsendingar í sínum fyrsta leik fyrir Los Angeles Lakers. David Lee var stigahæstur hjá Golden State með 19 stig.

Ray Allen var með 10 stig og 5 stoðsendingar á 27 mínútum í sínum fyrsta leik með Miami Heat, Chris Bosh skoraði 22 stig og LeBron James var með 10 stig, 6 fráköst og 6 stoðsendingar á 24 mínútum. Dwyane Wade er enn að jafna sig eftir aðgerð á hné.

Boston Celtics tapaði sínum fyrsta leik í Evrópuferðinni á móti tyrkneska félaginu Fenerbahce en vann 105-75 sigur á ítalska liðinu Emporio Armani Milano í gær. Rajon Rondo og Jeff Green voru báðir með 17 stig fyrir Boston-liðið.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×