Handbolti

Umfjöllun og viðtöl: Tertnes - Fram 35-21

Sigmar Sigfússon skrifar
Mynd/Vilhelm
Tertnes IL gjörsigraði Fram í Safamýrinni í Evrópukeppni félagsliða í handbolta í dag. Þær norsku unnu með 14 mörkum og fara þær með afar þægilega markatölu inn í seinni leikinn, sem er í Safamýrinni á morgun klukkan 16.00.

 

Fyrri hálfleikur var hraður á köflum og byrjuðu þær norsku vel, bæði í sókn og vörn. Stella Sigurðardóttir var ekki að finna sig vel fyrir Fram í fyrri hálfleik og munaði um minna. Tertnes var ávallt skrefi á undan og náði að halda 2-3 marka forskoti þar til í lok hálfleiksins. Þá kom góður norskur kafli og hálfleikstölur voru 15–10 fyrir þeim norsku. Framarar spiluðu ágætlega í fyrri hálfleik og gafu þeim norsku ekkert eftir á köflum.

 

Í seinni hálfleik komu leikmenn Tertnes virkilega einbeittir til leiks og juku forskot sitt jafnt og þétt eftir því sem leið á leikinn. Það var aldrei spurning hvort liðið ætlaði sér sigur og komu norsk mörk í öllum regnbogans litum. Þær norsku voru komnar með níu marka forystu um miðjan seinnihálfleik og leyfðu mörgum af bekknum að spila.

Norskur kvennahandbolti er afar sterkur af þessum leik að dæma og eru til alls líklegar í þessari keppni. Marthe Reinkind var markahæst hjá Tertnes með 7 mörk, þar af 3 af vítapunktinum. Hjá Frömurum var Elísabet Gunnarsdóttir hlutskörpust með fimm mörk.

Halldór: Erum ekki 14 mörkum lélegri

„Vorum ekki góðar í dag, ég tel okkur ekki 14 mörkum lélegri en þær. Við vorum að fá á okkur alltöf mörg hröð upphlaup í þessum leik.“

 

„Í fyrri hálfleik vorum við að spila yfirvegað í sóknarleiknum og vorum sækja breitt á þær. Þær norsku þurftu að hafa aðeins fyrir því þá. En við getum ekki gefið boltann auðveldlega frá okkur - þær eru þá fljótar að refsa sem þær gerðu ítrekað í þessum leik.“

 

„Það er allt hægt í handbolta en við töpuðum með 14 mörkum í dag og við förum í leikinn á morgun til þess að gera betur. Hverju það skilar okkur verður að koma í ljós. En við verðum að eiga betri í leik í dag, það er ljóst.“

 

Hildigunnur: Eigum góða möguleika í þessari keppni

„Við erum rosalega sáttar að klára þetta með 14 mörkum sem er mun meira en við bjuggumst við. Stelpurnar í liðinu eru búnar að spila lengi saman og ég er eini nýji leikmaðurinn í liðinu svo við eru vel spilandi lið,“ sagði Hildigunnur Einarsdóttir, leikmaður Tertnes IL.

 

„Ég tel möguleika okkar nokkuð góða í þessari keppni. Við erum mjög sterkar og getum komist langt með þennan hóp. En fyrst verðum við að vinna á morgun. Getumunurinn er mikill á norskum kvennahandbolta og þeim íslenska en ég held að Framarar komi sterkar í leikinn á morgun.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×