Tónlist

Tvö íslensk verk frumflutt í hádeginu

Katie Elizabeth Buckley hörpuleikari og Kristinn Árnason gítarleikari.
Katie Elizabeth Buckley hörpuleikari og Kristinn Árnason gítarleikari.
Katie Elizabeth Buckley hörpuleikari og Kristinn Árnason gítarleikari flytja fjögur verk eftir Áskel Másson tónskáld á háskólatónleikum í dag. Tvö verkanna, Haustljóð og Encore, verða frumflutt.

Áskell hefur samið á annað hundrað tónverk af ýmsum toga, einleiks- og hljómsveitarverk, sönglög og kórverk, óperur og óratoríur. Verk hans hafa verið leikin um allan heim og flutt af mörgum helstu hljómsveitum heimsins undir stjórn færustu stjórnenda. Auk frumfluttu verkanna leika Katie og Kristinn verkin Mirage frá 2006 og Poème, sem fyrst var leikið í maí á þessu ári.

Katie Buckley er bandarískur tónlistarmaður og hefur gegnt stöðu leiðandi hörpuleikara hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands síðan 2006. Kristinn Árnason hefur gefið út fimm geisladiska með gítareinleik, þar á meðal disk með verkum eftir Sor og Ponce sem hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin árið 1997 í flokki klassískra hljómdiska.

Tónleikarnir hefjast kl. 12.30 og verða í kapellunni á annarri hæð aðalbyggingar Háskóla Íslands. Enginn aðgangseyrir er að tónleikunum og allir eru velkomnir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×