Handbolti

Karabatic má aftur æfa með Montpellier

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nikola Karabatic í landsleik á móti Íslandi.
Nikola Karabatic í landsleik á móti Íslandi. Mynd/Nordic Photos/Getty
Franska handboltastjarnan Nikola Karabatic hefur fengið leyfi til að mæta aftur á æfingar hjá Montpellier en hann mátti ekki umgangast liðsfélagana á meðan rannsókn stöð á einu mesta hneykslismáli í sögu handboltans í Frakklandi.

Karabatic og liðsfélagar hans Montpellier voru ásakaðir um að hafa hagrætt úrslitum í leik liðsins síðasta vor þar sem franska stórliðið tapaði óvænt fyrir Cesson-Sevigne í leik sem skipti engu máli í frönsku deildinni.

„Frá og með morgundeginum þá mega Nikola Karabatic og Issam Tej mæta aftur á æfingar," sagði Remy Levy, forseti Montpellier.

Luka Karabatic, bróðir Nikola Karabatic, þarf hinsvegar að mæta fyrir aganefnd félagsins í næstu viku. Levy gaf það út að þeir sem yrðu dæmdir sekir í þessu máli fengju ekki aftur að spila með félaginu.

Nikola Karabatic er að mörgum talinn vera besti handboltamaður heims en hann hefur allan tímann haldið fram sakleysi sínu í þessu máli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×