Tónlist

Fyrsta myndband Krumma frumsýnt á Vísi

Vísir frumsýnir hér nýtt myndband hljómsveitarinnar Legend við lagið City sem Krummi Björgvinsson samdi, tók upp og leikstýrði. Myndbandið var tekið upp á 17. júní í sumar.

"Ég vopnaði mig með einni kameru, tveimur karakterum og aðstoðarmanneskju og eyddi sautjándanum á hlaupum um bæinn. Ég hafði vonast til að fleira fólk væri í bænum þennan dag, en því virðist fara fækkandi ár hvert," segir Krummi.

Myndbandið segir frá ungu og ástföngnu pönkarapari sem býr á götunni og fer um bæinn og stelur sér til matar ásamt því að taka þátt í hátíðarhöldunum. "Þau lenda svo upp á kant hvort við annað og rífast en allt endar þó vel. Sagan er svolítið klisjuleg en efnið er myndrænt og flott."

Krummi segir gerð myndbandsins hafa verið skemmtilegt verkefni og að það væri gaman að prófa að gera myndbönd fyrir aðra í framtíðinni. Hann naut liðsinnis tveggja vina sinna við gerð myndbandsins því Hrafnhildur Hólmgeirsdóttir stíliseraði klæðnað pönkaranna og kvikmyndagerðarmaðurinn Frosti Jón Runólfsson mun aðstoðaði hann við eftirvinnslu.

Pönkarana leika Elísabet Jónsdóttir og Frímann Ísleifur Frímannsson. Aðstoðarkona við gerð myndbandsins og leikari var Hlédís Maren Guðmundsdóttir.

Fyrsta plata Legend, Fearless, hefur fengið prýðisgóða dóma hjá gagnrýnendum. Hægt er að kynna sér hljómsveitina nánar á Facebook-síðu hennar, á Twitter og á Tumblr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×