Enski boltinn

Mancini: Balotelli getur orðið einn sá besti í heimi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Roberto Mancini telur að Mario Balotelli gæti orðið einn besti knattspyrnumaður heims ef hann myndi leggja meira á sig og breyta viðhorfi sínu.

Mancini greindi frá því fyrir leik City gegn Tottenham á dögunum að Balotelli hefði ekki verið með vegna lélegrar frammistöðu á æfingum.

Balotelli hefur ósjaldan komist í fréttir fyrir uppátæki sín bæði innan vallar sem utan. Mancini segir þó að hann sé góður drengur.

„Balotelli hefur allt sem hann þarf til að verða einn besti leikmaður heims," sagði Mancini.

„Hann gæti orðið jafn góður og Cristiano Ronaldo og Lionel Messi en til þess þarf hann að skilja að það þarf mikla vinnu til þess."

„Hann er 22 ára gamall en lífið getur breyst á augabragði. Til þess að verða eins og Ronaldo og Messi þarf hann að vera með hugann við fótboltann - ekki hluti sem skipta engu máli."

„Hann getur skorað tvö mörk en fengið svo rautt spjald í næsta leik á eftir. Það er ekki auðvelt að vinna með honum á hverjum degi því knattspyrnustjórar eiga að hugsa um 22 leikmenn."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×