Körfubolti

NBA í nótt: Kobe Bryant fór á kostum

Kobe Bryant skorar hér tvö af alls 34 stigum sínum í leiknum gegn Philadelphia í nótt.
Kobe Bryant skorar hér tvö af alls 34 stigum sínum í leiknum gegn Philadelphia í nótt. AP
Kobe Bryant fór á kostum í 111-98 sigri LA Lakers gegn Philadelphia á útivelli. Þetta var annar sigurleikur Lakers í röð en slíkt hefur liðið ekki afrekað í fjórar vikur. Bryant skoraði 34 stig. Metta World Peace tók 16 fráköst en það er persónulegt met hjá kappanum.

Dwight Howard skoraði 17 stig og tók 11 fráköst fyrir Lakers, Darius Morris skoraði 15 stig sem er persónulegt met hjá kappanum en hann skoraði öll stigin í fyrri hálfleik, Chris Duhon bætti við 14 stigum. Lakers hefur nú unnið 11 leiki á tímabilinu en tapað 14.

Steve Nash og Pau Gasol léku ekki með Lakers en þeir hafa verið frá vegna meiðsla. Nick Young var stigahæstyr í liði Philadelphia með 30 stig en liðið hefur unnið 12 leiki en tapað 12 á tímabilinu. Þetta var þriðji tapleikur liðsins í röð.

Toronto – Houston 103-96

Jose Calderon skoraði 18 stig, gaf 14 stoðsendingar og tók 10 fráköst í liði Toronto. Þetta var annar sigurleikur liðsins í röð en slíkt hefur ekki gerst í átta mánuði. Alan Anderson skoraði 24 stig fyrir heimamenn, DeMar DeRozan bætti við 19 stigum fyrir Toronto sem hefur aðeins unnið 6 leiki á tímabilinu en tapað 19. James Harden skoraði 28 stig fyrir Houston, og Marcus Morris bætti við 19.

Sacramento – Denver 97-122

JaVale McGee skoraði 19 stig fyrir Denver í stórsigri liðsins. Danilo Gallinari var með 18 stig fyrir gestina frá Denver sem hefur nú unnið sjö leiki í röð gegn Sacramento. Þetta var fjórði tapleikur Sacramento í röð. Isaiah Thomas skoraði 20 stig fyrir Sacramento, DeMarcus Cousins skoraði 19 og tók 11 fráköst fyrir heimamenn.

Portland – New Orleans 95-94

Nýliðinnn hjá Portland, Damian Lillard, var hetja liðsins þegar hann tryggði liðinu sigur með þriggja stiga skoti 0,3 sekúndum fyrir leikslok. Þar með tapaði New Orleans sínum sjötta leik í röð. Portland var um tíma 16 stigum undir í leiknum. J.J. Hickson skoraði 24 stig og tók 16 fráköst fyrir Portland. Ryan Anderson skoraði 26 stig fyrir New Orleans.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×