Handbolti

Tíu marka tap hjá strákunum hans Óskars Bjarna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Óskar Bjarni Óskarsson.
Óskar Bjarni Óskarsson. Mynd/Vilhelm
Lærisveinar Óskars Bjarna Óskarssonar í Viborg HK töpuðu stórt á útivelli á móti Skjern Håndbold í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld. Skjern Håndbold er eitt af sterkustu liðum deildarinnar og vann öruggan 34-24 sigur.

Viborg HK komst í 1-0 en síðan tóku liðsmenn Skjern völdin. Þeir voru 18-12 yfir í hálfleik og unnu að lokum með tíu marka mun. Skjern hefur unnið 12 af 15 leikjum sínum á tímabilinu og er í 3. sæti deildarinnar á eftir KIF København og Bjerringbro SV.

Viborg lék án fjögurra sterkra leikmanna í leiknum en þeir Rene Bach Madsen, Rasmus Overby, Jimmi Riis og Elijan Dzankovic eru allir meiddir. Viborg hefur aðeins náð í átta stig í fyrstu fimmtán leikjunum og er í 11.sæti af fjórtán liðum.

Heino Holm Knudsen var langmarkahæstur hjá Viborg með tíu mörk en Orri Freyr Gíslason var ekki meðal markaskorara liðsins í kvöld.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×