Handbolti

Mikkel Hansen meiddur á hné - Wilbek er ekki bjartsýnn

Mikkel Hansen, stórskytta danska landsliðsins í handbolta, hefur ekki leikið með danska landsliðinu frá því á ólympíuleikunum í London.
Mikkel Hansen, stórskytta danska landsliðsins í handbolta, hefur ekki leikið með danska landsliðinu frá því á ólympíuleikunum í London. Nordic Photos / Getty Images
Mikkel Hansen, stórskytta danska landsliðsins í handbolta, hefur ekki leikið með danska landsliðinu frá því á ólympíuleikunum í London. Það er óvíst með þátttöku hans með Dönum á HM í Spáni sem hefst í janúar en Hansen glímir við meiðsli í hné. Danir eru með Íslendingum í riðli á HM en leikið verður í Sevilla.

Ulrik Wilbek, þjálfari danska landsliðsins, hefur áhyggjur af meiðslum stórstjörnunnar en Wilbek ræddi þessi mál í viðtali við Jyllands-Posten.

„Mikkel er bjartsýnn, en ég hef sjálfur áhyggjur og efast um að hann verði klár fyrir HM. Þetta getur farið hvernig sem er. Ég mun ekki leggja pressu á hann að koma ef hann er ekki klár. Hann er sá eini sem getur tekið þessa ákvörðun," sagði hinn litríki þjálfari. Hansen lék ekki með félagsliði sínu í París í Frakklandi um s.l. helgi en hann er með brjóskskemmdir í hnénu. Gert er ráð fyrir að Hansen verði með Paris þegar liðið leikur gegn Nantes um næstu helgi.

„Ef ég fengi að ráða þá myndi hann ekki spila þann leik," bætti Wilbek við en hann hefur hug á því að hvíla lykilmenn í nokkrum leikjum í riðlakeppninni í Sevilla. Gegn Katar og Síle. HM í handbolta hefst þann 11. janúar og úrslitaleikurinn fer fram þann 27. janúar. Allir leikir Íslands verða sýndir í beinni útsendingu á Stöð 2 sport en alls verða um 40 leikir sýndir frá keppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×