Tónlist. Synopsis. Stereo & Pulse.
Hljómsveitin Stereo Hypnosis er skipuð feðgunum Óskari og Pan Thorarensen. Hún var stofnuð í Flatey á Breiðafirði árið 2006. Synopsis er þriðja plata Stereo Hypnosis, en áður komu Parallel Island (2007) og Hypnogogia (2009). Hljómsveitin hefur verið dugleg við tónleikahald og hefur bæði spilað mikið hér á landi og erlendis. Hún á meðal annars að baki tónleikaferðir til Eystrasaltsríkjanna, Rússlands, Kanada og Ítalíu á siðustu tveimur árum.
Synopsis er samstarfsverkefni með ítalska tónlistarmanninum Marco Galardi, sem kallar sig Pulse. Stereo Hypnosis hljóðritar gjarnan plöturnar sínar á óvenjulegum stöðum; Parallel Island var tekin upp í Flatey, Hypnogogia á Hellissandi og Synopsis var hljóðrituð í hlíðum Toscana-héraðs á Ítalíu. Tónlist Stereo Hypnosis er hæggeng og stemningsfull raftónlist. Á Synopsis eru fimm lög sem heita Synopsis 1-5 og voru tekin upp á fimm dögum.
Tónlistin á Synopsis ber það með sér að vera að minnsta kosti að hluta til spunnin upp á staðnum. Hún á margt sameiginlegt með gamalli sveimtónlist, að því undanskildu að undir tónum Synopsis hljómar mjög ákveðinn raftónlistartaktur, sem herðir á tempóinu og gefur tónlistinn annan blæ. Útkoman er ekki byltingarkennd, en hljómar fersk og nærandi.
Niðurstaða: Stemningsfull raftónlist frá feðgunum í Stereo Hypnosis.
