Handbolti

Ríf vonandi ekki eitthvað fyrir þessa Ólympíuleika

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Vignir Svavarsson fagnar hér sigri á Ungverjum á EM í Serbíu í janúar.
Vignir Svavarsson fagnar hér sigri á Ungverjum á EM í Serbíu í janúar. Mynd/Vilhelm
Varnartröllið Vignir Svavarsson hefur verið lengi viðloðandi íslenska karlalandsliðið en ólíkt flestum öðrum reynsluboltum liðsins þá hefur hann ekki fengið að kynnast því ennþá að spila á Ólympíuleikum.

Vignir missti af síðustu leikum vegna meiðsla en var í eldlínunni í Króatíu um páskana þegar strákarnir okkar tryggðu sér farseðilinn á ÓL í London.

Gerðum þetta af fullum krafti
Mynd/Vilhelm
„Þetta gekk bara eins og það átti að ganga því við ætluðum að koma okkur á Ólympíuleikana og það hafðist. Við vorum vel undirbúnir og komum einbeittir í báða leikina og eins og sást þá vorum við ákveðnir í að vinna báða þessa leiki örugglega og gera þetta af fullum krafti," sagði Vignir þegar Fréttablaðið heyrði í kappanum í gær.

Það er ekki hægt að segja að sigrarnir á Síle og Japan hafi komið á óvart enda var íslenska landsliðið í léttasta riðlinum í forkeppninni en Guðmundi Guðmundssyni landsliðsþjálfara tókst vel í að halda strákunum á jörðinni.

„Við megum ekkert við því að slaka á gegn svona liðum því það getur verið hættulegt. Við vorum meðvitaðir um það og þeir áttu kannski aldrei möguleika þegar á hólminn var komið," segir Vignir sem vonast eftir því að vera í fjórtán manna hópi Guðmundar Guðmundssonar í London.

„Þetta verða fyrstu Ólympíuleikar mínir svo lengi sem ég helst heill og verð í hóp og þetta er búið að vera markmiðið hjá mér lengi," segir Vignir sem hefur verið á brúninni í undanfarin tvö skipti.

Meiddist 2 vikum fyrir ÓL
Mynd/Vilhelm
„Ég var í æfingahópnum fyrir Aþenu 2004 og tók þátt í öllum undirbúningnum og eftir það setti ég mér það markmið á sínum tíma að komast á næstu Ólympíuleika. Svo varð ég fyrir því óláni að rífa einhvern vöðva í maga tveimur vikum fyrir brottför til Peking og komst því miður ekki með. Nú ætla ég að vona að ég fari ekki að rífa eitthvað fyrir þessa Ólympíuleika.

Þetta voru mín fyrstu meiðsli á ferlinum og þau gátu ekki komið á meira svekkjandi tíma," sagði Vignir. Það eru fjórir mánuðir í leikana og Vignir er á því að undirbúningur leikmanna eigi að hefjast strax.

„Menn eru að spila mismunandi mikið með sínum félagsliðum og ég held að menn séu meðvitaðir um það að halda sér í góðu formi. Sumir þurfa að styrkja sig og aðrir þurfa að gera hitt og þetta til þess að vera í sem bestu líkamlegu ásigkomulagi þegar kemur að undirbúningnum fyrir leikana. Ég held að allir í liðinu séu innstilltir á það að vera í sem bestu formi þegar að því kemur," segir Vignir. En skipta þessir leikar aðeins meira máli fyrir þá í liðinu sem hafa ekki komist á ÓL áður?

„Ég er ekki viss um að það skipti eitthvað meira máli fyrir okkur því Ólympíuleikar eru stærsta íþróttamót sem íþróttamaður getur komist á. Ef við skoðum handboltamenn þá er stórmót á hverju ári en Ólympíuleikar bara á fjögurra ára fresti," segir Vignir og hann vill heldur ekkert gefa upp um hvort að þetta verði stærsta stundin á ferlinum.

„Ég get voða lítið sagt um það fyrr en að ég er kominn þangað. Mögulega gæti þetta orðið með stærri stundum sem maður hefur upplifað í sportinu," segir Vignir en Fréttablaðið náði á hann þegar hann var á leiðinni heim í leigubíl eftir að hafa flogið heim frá Króatíu.

Leikur í kvöld
Mynd/Vilhelm
„Ég er að fara að taka dótið saman og er að fara á æfingu því við erum að fara að spila á morgun. Þetta er ansi stíft prógram. Það var frí í þarsíðustu viku með félagsliðinu en þá voru við byrjaðir með landsliðinu. Það er alltaf frí þegar við erum með landsliðinu," segir Vignir og hann og landsliðsstrákarnir eru að fórna ýmsu fyrir landsliðið.

„Fórna og ekki fórna. Það er heiður að spila með landsliðinu en það má kannski segja að við séum að fórna fríi fyrir landsliðið," segir Vignir að lokum. Hann og félagar í TSV Hannover-Burgdorf mæta Kára Kristjánssyni og félögum í Wetzlar í Íslendingaslag í þýsku úrvalsdeildinni í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×