Handbolti

Óvæntir farseðlar á stórmót hafa reynst vel hjá strákunum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Anton
Í bæði skiptin sem íslenska karlalandsliðið hefur farið bakdyramegin inn á stórmót í handbolta hefur góður árangur náðst.

Tveimur mánuðum fyrir Ólympíuleikana 1984 í Los Angeles bauðst íslenska landsliðinu sæti á leikunum þar sem Sovétríkin og fleiri Austur-Evrópuþjóðir hættu við þátttöku á leikunum. Ísland hafði náð sjöunda sæti í B-keppninni ári áður sem dugði þeim til sætis í Los Angeles. Íslenska liðið hafnaði í þriðja sæti síns riðils og lék um fimmta sætið gegn Svíum sem höfðu betur.

Aftur fengu „Strákarnir okkar" óvænt sæti á Ólympíuleikum 1992, nú í Barcelona. Vegna stíðsástandsins í Júgóslavíu ákváðu Sameinuðu þjóðirnar að Júgóslavía fengi ekki að senda lið til þátttöku á leikunum þótt einstaklingum væri ennþá heimil þátttaka.

Íslenska liðið hafði æft vel um sumarið en boð á leikana barst þó ekki fyrr en örfáum dögum fyrir setningu þeirra. Íslenska liðið, sem lék án sterkra lykilmanna á borð við Kristján Arason og Sigurð Sveinsson sem glímdu við meiðsli, komust í undanúrslit. Niðurstaðan varð fjórða sætið eftir tap gegn Frökkum í leiknum um þriðja sætið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×