Viðskipti innlent

Íhuga mál vegna fasteignagjaldanna

Pétur J. eiríksson
Pétur J. eiríksson
Portus ehf., rekstrarfélag Hörpu, íhugar að sækja rétt sinn fyrir dómsstólum vegna álagningar fasteignagjalda. Fyrirtækið hefur fengið lögfræðiálit sem sýnir, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins, fram á ólögmæti álagningarinnar.

Pétur J. Eiríksson, stjórnarformaður Portusar, staðfestir að álitið sé komið í hús, en vill ekki tjá sig um innihald þess.

„Við munum ræða innihaldið við eigendur okkar og taka afstöðu um næstu skref, vonandi fyrir 15. september." Spurður hver þau skref gætu verið segir hann: „Það er að gera ekki neitt, eða að taka málið áfram til Þjóðskrár eða dómstóla."

Eins og fram hefur komið gerðu áætlanir um rekstur Hörpu, sem eigendur lögðu blessun sína yfir, ráð fyrir að fasteignagjöld yrðu ekki hærri en 180 milljónir króna. Úrskurður yfirfasteignamatsnefndar er að miða skuli við byggingarkostnað, en ekki nýtingarkostnað, og fasteignagjöld séu því 335 milljónir króna. Harpa er í eigu ríkis og Reykjavíkurborgar.

Rekstur Hörpu stendur ekki undir sér og tap á rekstri verður 407 milljónir króna í ár.

Óljóst er hvernig eigendur bregðast við lögfræðiálitinu, en samkvæmt heimildum blaðsins telur Portus það þess eðlis að dómsmál gæti skilað árangri. Málaferli vegna greiðslu gjaldanna til annars eigandans, Reykjavíkurborgar, gætu því verið í uppsiglingu.- kóp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×