Tónlist

Rokkjötnar verða líklega endurteknir

Átta þungarokkshljómsveitir stigu á svið á Rokkjötnum á laugardaginn, þar á meðal Momentum.
Átta þungarokkshljómsveitir stigu á svið á Rokkjötnum á laugardaginn, þar á meðal Momentum. Mynd/Þóroddur bjarnason
„Það kemur allt til greina en það er ekkert búið að ákveða neitt,“ segir Snæbjörn Ragnarsson úr Skálmöld, spurður hvort Rokkjötnar verði endurteknir á næsta ári.

Rokkhátíðin var haldin í Kaplakrika í fyrsta sinn á laugardaginn með átta íslenskum hljómsveitum og heppnaðist hún með eindæmum vel. Á bilinu 1.500 til 2.000 manns sóttu hátíðina og magnaðist stemningin upp eftir því sem leið á kvöldið.

„Þetta var alveg geðveikt, þetta gekk fullkomlega upp,“ segir Snæbjörn, sem átti stóran þátt í skipulagningunni. „Takmarkið var að sýna fram á að það væri hægt að halda risastóra rokktónleika án þess að fá erlend bönd og það tókst. Við vildum grafa þungarokkið úr torfkofunum og slá á þessa minnimáttarkennd.“

Hann telur líklegt að hátíðin verði haldin að ári. „Það eru allir farnir að tala um Rokkkjötna 2013 en við erum enn þá að sofa úr okkur þynnkuna. Auðvitað finnst manni það trúlegt eins og staðan er núna en við erum ekki búnir að búa til Facebook-viðburðinn.“

Spurður út í möguleikann á að fá erlenda hljómsveit á næstu hátíð segist Snæbjörn ekki vilja útiloka neitt. „Við sjáum til hvað okkur dettur í hug næst.“

-fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×