Handbolti

Kóngarnir í Laugardalshöllinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson
Guðjón Valur Sigurðsson
Guðjón Valur Sigurðsson og Aron Pálmarsson voru mennirnir á bak við sigurinn í fyrsta leik handboltalandsliðsins undir stjórn Arons Kristjánssonar. Strákarnir úr Kiel voru saman með 22 mörk í 36-28 sigri á Hvít-Rússum og eins og undanfarin ár hefur verið hægt að treysta á þeir félagar finni fjölina sína í Höllinni.

Guðjón Valur skoraði 11 mörk úr 15 skotum, þar af komu fimm marka hans á síðustu sjö mínútunum og tvö voru af vítapunktinum. Aron nýtti 11 af 18 skotum sínum og komu þau öll utan af velli. Aron skoraði 7 mörk úr 10 skotum á fyrstu 22 mínútum leiksins.

Það heyrist líklega sjaldnast hærra í stúkunni þegar Guðjón Valur skorar úr einu af sínum háhraða hraðaupphlaupum eða þegar Aron lætur eitt af þrumuskotum sínum þenja netmöskva andstæðinganna.

Guðjón Valur og Aron hafa nú báðir skorað yfir 50 mörk í átta síðustu leikjum Íslands í Laugardalshöllinni og hafa öðrum fremur séð til þess að liðið hefur unnið 7 þessara leikja og ekki tapað neinum þeirra. 46 af þessum 50 mörkum Guðjóns hafa reyndar komið í síðustu fimm leikjum hans þar sem hann hefur aldrei skorað minna en sjö mörk.

Aron er með 43 mörk úr 63 skotum (68 prósent) í sex síðustu leikjum sínum í Laugardalshöllinni en Guðjón Valur hefur skorað 46 úr 58 skotum (79 prósent) í sjö leikjum sínum í Höllinni á sama tímabili.

Guðjón Valur náði að skora tímamótamark í leiknum í fyrrakvöld því hann er nú kominn með 202 landsliðsmörk í húsinu. Guðjón náði þessu í aðeins sínum 33 landsleik í Höllinni og er hann því búinn að skora 6,1 mark að meðaltali í leikjum sínum þar.

Guðjón Valur vantar þó enn 34 mörk að ná Ólafi Stefánssyni sem skoraði 236 mörk í 53 landsleikjum sínum í Laugardalshöllinni eða 4,5 að meðaltali í leik.

Guðjón lék sinn fyrsta landsleik í Höllinni 2001 og hefur síðan skorað átta mörk eða fleiri í 11 landsleikjum í Laugardalshöllinni en hann var einu marki frá því að jafna sinn besta persónulega árangur. Guðjón Valur hefur þrisvar náð því að skora tólf mörk í einum leik í Laugardalshöllinni.

Aron Pálmarsson er þegar kominn með 89 mörk í 14 leikjum sínum í Höllinni og því ekki ólíklegt að hann verði kominn í 200 marka klúbbinn með Ólafi og Guðjóni Val eftir nokkur ár.

Síðustu fimm leikir Guðjóns Vals í Höllinni

Sigur á Hvíta-Rússlandi 11 mörk (15 skot)

Jafntefli við Noreg 8 (11 skot)

Sigur á Finnlandi 7 (9 skot)

Sigur á Austurríki 8 (10 skot)

Sigur á Þýskalandi 12 (13 skot)

Samanlagt: 46 mörk

(58 skot, 79 prósent skotnýting)

Síðustu sex leikir Arons í Höllinni

Sigur á Hvíta-Rússlandi 11 (18 skot)

Sigur á Hollandi 7 (8 skot)

Jafntefli við Noreg 4 (10 skot)

Sigur á Finnlandi 5 (7 skot)

Sigur á Austurríki 8 (9 skot)

Samanlagt: 43 mörk

(63 skot, 68 prósent skotnýting)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×