Viðskipti innlent

Kröfu Norðurturnsins hafnað

Norðurturninn Til stóð að reisa 15 hæða turn við vesturenda Smáralindar en hann hefur staðið hálfkláraður frá árinu 2008. Fréttablaðið/Vilhelm
Norðurturninn Til stóð að reisa 15 hæða turn við vesturenda Smáralindar en hann hefur staðið hálfkláraður frá árinu 2008. Fréttablaðið/Vilhelm
Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í gær eignarhaldsfélagið Smáralind ehf., dótturfélag fasteignafélagsins Regins, af 1,3 milljarða króna kröfu þrotabús Norðurturnsins.

Norðurturninn er félag sem var stofnað utan um byggingu 15 hæða turns við Smáralind. Turninn hefur setið hálfkláraður á vesturenda Smáralindar frá því á árinu 2008 en enn hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvort turninn verður kláraður eða hann rifinn.

Þrotabú Norðurturnsins stefndi Smáralind ehf. þar sem Norðurturninn taldi að síðarnefnda félagið hefði undirgengist skuldbindingu um að leggja til fjármuni til framkvæmdanna. Smáralind ehf. hafnaði þeirri kröfu á þeirri forsendu að engar samþykktir fyndust í gögnum félagsins fyrir þátttöku í byggingarkostnaðinum. Féllst Héraðsdómur á röksemdir Smáralindar.

Eins og áður sagði er Smáralind ehf. dótturfélag fasteignafélagsins Regins. Þegar Reginn var skráður á markað síðastliðið vor gaf Landsbankinn út svokallaða skaðleysisyfirlýsingu vegna dómsmálsins. Þar með hefði kostnaður vegna þess fallið á Landsbankann hefði Héraðsdómur fallist á kröfur Norðurturnsins.

Ekki liggur fyrir hvort málinu verður áfrýjað til Hæstaréttar.- mþl






Fleiri fréttir

Sjá meira


×