Handbolti

Arnór hafnaði Meistaradeildarliði - átti að leysa af Cupic

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Þór Gunnarsson.
Arnór Þór Gunnarsson. Mynd/Vilhelm
Arnór Þór Gunnarsson er nýkominn heim frá HM í handbolta á Spáni þar sem hann stimplaði sig inn í íslenska landsliðið með flotti frammistöðu. Arnór Þór skoraði 13 mörk í 6 leikjum á sínu fyrsta stórmóti og vakti athygli utan Íslands fyrir frammistöðu sína.

Pólska Meistaradeildarliðið KS Vive Targi Kielce vildi nefnilega fá Arnór til sín og ætlaði að kaupa hann frá Bergischer en íslenski landsliðsmaðurinn vildi ekki fara til pólska stórliðsins. Þetta kemur fram í frétt á þýsku vefsíðunni Handball-World í dag.

Arnóri líður vel hjá Bergischer-liðinu og segir í viðtali við þýska vefmiðilinn að það hefði aldrei komið til greina að yfirgefa félagið: „Ég hefði ekki yfirgefið Bergischer, sama hvað í boði hefði verið. Ég hef klárt markmið hér og það er að komast upp í úrvalsdeildina og spila með mínu liði í sterkustu deild í heimi. Ég er bara 25 ára og get spilað í öðrum löndum síðar," sagði Arnór í viðtali við þýsku vefsíðuna.

Arnór hefði getað orðið liðsfélagi Þóris Ólafssonar en þeir skiptu hægri hornastöðunni á milli sín á HM í handbolta. Hann átti að leysa af króatíska landsliðsmanninn Ivan Cupic sem meiddist á öxl í leiknum um þriðja sætið á HM í handbolta.

Sebastian Hinze, aðalþjálfari Bergischer-liðsins, var ánægður með afstöðu leikmannsins síns og lítur á það sem mikla viðurkenningu á liðinu og því sem er að gerast hjá félaginu. Framkvæmdastjóri félagsins segir að það hefði vissulega verið hægt að nota peningana sem Bergischer HC hefði fengið fyrir Arnór en afstaða leikmannsins sé aftur á móti mikil hvatning fyrir félagið.

Bergischer HC er í öðru sæti þýsku b-deildarinnar með 26 stig. Emsdetten er í efsta sæti með 30 stig og Bittenfeld er í 3. sæti með 24 stig en þrjú efstu liðin fara upp í efstu deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×