Handbolti

Hefðin með Fram þó Valur eigi titil að verja

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Fögnuður Vals í fyrra var innilegur.
Fögnuður Vals í fyrra var innilegur. Mynd / Daníel
Fjórða árið í röð verður það Fram eða Valur sem verður bikarmeistari kvenna í handbolta því liðin mætast í úrslitum Síma bikarsins í dag klukkan 16:00. Þetta er jafnframt í þriðja skiptið á fjórum árum sem liðin mætast í úrslitum.

Hefðin er með Fram því liðið hefur 14 sinnum fagnað bikarmeistaratitlinum en Valur hefur aðeins 4 sinnum unnið bikarinn.

Ekki nóg með að Fram hafi oftast orðið bikarmeistari þá hefur aðstoðarþjálfari liðsins, Guðríður Guðjónsdóttir alltaf komið að bikarmeistaratitlum kvennaliðs Fram, ýmist sem leikmaður eða þjálfari.

Þarna mætast sigursælustu kvennalið sögunnar því Fram hefur oftast allra orðið Íslandsmeistari kvenna, 19 sinnum, og Valur næst oftast eða 15 sinnum.

Fram varð bikarmeistari bæði 2010 og 2011 og vann Val í úrslitum í bæði skiptin.

Valur sem orðið hefur Íslandsmeistari þrjú ár í röð náði loks að landa bikarnum í fyrra, í fyrsta sinn í 12 ár, með því að leggja ÍBV í úrslitum en Valur sigraði þá Fram í átta liða úrslitum.

Valur hefur sigrað Fram í úrslitum Íslandsmótsins þrjú síðustu ár en Fram hefur haft tak á Val þegar komið er í Laugardalshöllina. Í dag kemur ljós hvort Fram haldi taki sínu á Val í bikarúrslitum eða hvort Valur nær að vinna bikarinn annað árið í röð, í fyrsta sinn í sögu félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×