Körfubolti

Topplið NBA mætast í kvöld í beinni á Stöð 2 Sport

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dwyane Wade og LeBron James
Dwyane Wade og LeBron James Mynd/Nordic Photos/Getty
Stórleikur San Antonio Spurs og Miami Heat í NBA-deildinni í körfubolta í kvöld verður sýndur beint á Stöð 2 Sport en ekkert lið hefur unnið fleiri leiki á tímabilinu en einmitt þessi tvö stjörnuprýddu lið.

Þetta verður fyrsti alvöru leikur liðanna í vetur en það vakti mikla athygli í fyrri leik liðanna í Maimi í nóvember þegar Gregg Popovich, þjálfari San Antonio Spurs, ákvað að hvíla alla sína bestu leikmenn í 100-105 tapi á móti Miami. Manu Ginobili, Tim Duncan, Tony Parker og Danny Green voru ekki einu sinn í höllinni þegar leikurinn fór fram.

Miami hefur unnið 28 af síðustu 29 leikjum sínum og nánast gulltryggir sér heimavallarrétt út úrslitakeppnina með sigri í kvöld. San Antonio hefur hinsvegar unnið 28 af síðustu 30 heimaleikjum sínum og er gríðarlega erfitt heima að sækja.

Manu Ginobili verður ekki með í kvöld eftir að hann tognaði aftan í læri í sigrinum á Los Angeles Clippers á föstudagskvöldið en gamli refurinn Tim Duncan sá þá öðrum fremur um að landa sigrinum með 34 stigum á 32 mínútum.

Leikur San Antonio Spurs og Miami Heat hefst klukkan 23:00 og er í beinni á Stöð 2 Sport.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×