Körfubolti

NBA: Lakers vann San Antonio í fyrsta leik án KObe

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dwight Howard og Tim Duncan voru báðir öflugir í nótt.
Dwight Howard og Tim Duncan voru báðir öflugir í nótt. Mynd/AP
Los Angeles Lakers steig stórt skref í átt að úrslitakeppninni með því að vinna San Antonio Spurs í NBA-deildinni í körfubolta í nótt en þetta var fyrsti leikur liðsins eftir að Kobe Bryant sleit hásin. Miami Heat vann Chicago Bulls, Dirk Nowitzki varð 17. leikmaðurinn í sögunni til að skora 25 þúsund stig í sigri Dallas Maverricks og Denver Nuggets vann 22. heimasigurinn í röð.

Dwight Howard var með 26 stig og 17 fráköst og Steve Blake bætti við 23 stigum þegar Los Angeels Lakers vann 91-86 sigur á San Antonio Spurs. Þetta var fjórði sigur Lakers í röð og sá sjöundi í síðustu átta leikjum. Tim Duncan var með 23 stig og 10 fráköst hjá Spurs. Lakers hefur nú eins og hálfs leiks forskot á Utah Jazz í baráttunni um síðasta sætið inn í úrslitakeppnina.

LeBron James var með 24 stig og 7 fráköst og Dwyane Wade skoraði 22 stig þegar Miami Heat vann 105-93 heimasigur á Chicago Bulls. Mario Chalmers og Chris Andersen voru báðir með 15 stig en hjá Bulls var Luol Deng með 19 stig og Carlos Boozer skoraði 16 stig og tók 20 fráköst.

Dirk Nowitzki skoraði 19 stig í 107-89 sigri Dallas Mavericks á New Orleans Hornets og varð þar með 17. maðurinn til þess að skora 25 þúsund stig í NBA-deildinni. Dallas komst þá í 50 sigurhlutfall í fyrsta sinn síðan 12. desember 2012 (40 sigrar og 40 töp) en leikmenn liðsins hétu því í byrjun febrúar að raka sig ekki fyrr en þeir næðu því.

Andre Iguodala var með 28 stig og 9 stoðsendingar þegar Denver Nuggets vann 118-109 sigur á Portland Trailblazers en þetta var 22. heimasigur Denver í röð og 55. sigurleikurinn á tímabilinu sem er félagsmet. Denver er einum leik á undan Los Angeles Clippers og Memphis Grizzlies í baráttunni um þriðja sætið í Vesturdeildinni.

Carmelo Anthony var með 25 stig þegar New York Knicks vann 90-80 sigur á Indiana Pacers og tryggði sér annað sætið í Austurdeildinni. Þetta var fimmtándi sigur New York í síðustu sextán leikjum og þeir náðu öðru sætinu í Austrinu í fyrsta sinn síðan 1994.



Öll úrslit í NBA-deildinni í nótt:

Miami Heat - Chicago Bulls     105-93         

Toronto Raptors - Brooklyn Nets     93-87         

New York Knicks - Indiana Pacers     90-80         

Philadelphia 76Ers - Cleveland Cavaliers     91-77         

Denver Nuggets - Portland Trail Blazers     118-109     

New Orleans Hornets - Dallas Mavericks     89-107         

Houston Rockets - Sacramento Kings     121-100         

Los Angeles Lakers - San Antonio Spurs     91-86     



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×