Körfubolti

James einu atkvæði frá því að fá fullt hús

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James.
LeBron James. Mynd/NordicPhotos/Getty
LeBron James fékk 120 af 121 mögulegu atkvæði í fyrsta sætið í kjörinu á mikilvægasta leikmanni NBA-deildarinnar á þessu tímabili en valið var tilkynnt formlega í kvöld. James átti möguleika að vera sá fyrsti sem vinnur þessi eftirsóttu verðlaun með fullu húsi stiga.

Kevin Durant hjá Oklahoma City Thunder varð í öðru sæti í kjörinu en í þriðja sæti varð síðan Carmelo Anthony hjá New York Knicks. Atkvæðisrétt hafa fjölmiðlamenn sem fjalla um NBA-deildina í bandarískum fjölmiðlum.

Shaquille O'Neal var fyrir þetta kjör sá sem hafði komist næst því að fá fullt hús en hann fékk 120 af 121 atkvæði í fyrsta sætið tímabilið 1999-2000.

LeBron James er aðeins fimmti leikmaðurinn í sögunni til að vinna þessi verðlaun fjórum sinnum en hinir í klúbbnum eru þeir Kareem Abdul-Jabbar, Michael Jordan, Bill Russell og Wilt Chamberlain. Abdul-Jabbar er sá eini sem hefur eins og James náð því tvisvar sinnum að vera kosinn bestur tvö ár í röð.

James átti magnað tímabil með liði Miami Heat sem náði langbestum árangri í deildarkeppninni. Hann var með 26,8 stig, 8,0 fráköst og 7,3 stoðsendingar að meðaltali í leik og hitti úr 56 prósent skota sinna. Miami vann 66 af 82 leikjum og þar á meðal 27 leiki í röð sem er önnur lengsta sigurganga í sögu NBA-deildarinnar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×