Enski boltinn

Ótrúlegasti endir ársins á fótboltavellinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lokamínúturnar í leik Watford og Leicester City í umspili ensku b-deildarinnar í dag voru í meira lagi hádramatískar enda varð allt vitlaust á Vicarage Road þegar Watford tryggði sér magnaðan 3-1 sigur og þar með sæti í úrslitaleik á Wembley um sæti í ensku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.

Gianfranco Zola, knattspyrnustjóri Watford, er því einu skrefi nær að koma sínu liði upp í ensku úrvalsdeildina en liðið mætir annaðhvort Brighton & Hove Albion eða Crystal Palace í hreinum úrslitaleik 27. maí næstkomandi.

Leicester City vann fyrri leikinn 1-0 á heimavelli sínum og var í góðum málum þegar David Nugent jafnaði í 1-1 í leiknum í dag. Watford varð því að skora tvö mörk til þess að komast áfram.

Matej Vydra kom Watford í 2-1 á 65. mínútu með sínu öðru marki í leiknum en svo leið tíminn. Anthony Knockaert gat orðið hetja Leicester í uppbótartíma leiksins þegar liðið fékk vafasama vítaspyrnu.

Manuel Almunia varð hinsvegar vítið og 20 sekúndum síðar hafði Troy Deeney skoraði í hitt markið og tryggt Watford sigurinn. Það varð allt vitlaust og viðbrögð Gianfranco Zola, knattspyrnustjóra Watford eru ógleymanleg.

Það er hægt að sjá þessar dramatísku lokasekúndur leiksins með því að smella hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×