Handbolti

Daníel Örn í viðræðum við KR

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Daníel Örn, annar frá hægri, í leik með HK í vetur.
Daníel Örn, annar frá hægri, í leik með HK í vetur. Mynd/Daníel

Hornamaðurinn Daníel Örn Einarsson á nú í viðræðum við KR um að ganga til liðs við félagið og leika með því í 1. deild karla á næsta ári.

Arnar Jón Agnarsson, þjálfari liðsins, staðfestir að viðræður við hann séu nú í gangi. „Það er þó ekkert hægt að staðfesta enn,“ sagði Arnar Jón sem á von á frekari fréttum af leikmannamálum í næstu viku.

„Menn eru að hvíla sig eftir tímabilið og þessi mál kannski ekki efst á baugi hjá mörgum leikmönnum. En við erum bjartsýnir á að ná saman í gott lið,“ sagði Arnar Jón en KR tekur þátt í Íslandsmótinu á næstu leiktíð í fyrsta sinn í átta ár.

Arnar Jón stefnir að því að fá 4-5 leikmenn með reynslu úr úrvalsdeildinni. „Það verður svo að koma í ljós hversu margir uppaldir KR-ingar vilja koma til baka. Við bindum enn vonir við að Haraldur Þorvarðarson og Gylfi Gylfason hafi áhuga á að spila með okkur.“

Daníel Örn kom til HK frá Akureyri fyrir síðasta tímabil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×