Körfubolti

NBA: Miami jafnaði einvígið með öruggum sigri

Stefán Árni Pálsson skrifar

Miami Heat vann góðan sigur, 103-84, á San Antonio Spurs í úrslitum NBA-deildarinnar. Heat jafnaði því metið í einvíginu, 1-1. Miklir yfirburðir heimamanna í síðari hálfleiknum lögðu grunninn að öruggum sigri.

Það bendir því flest til þess að einvígið verði spennandi en næstu þrír leikir fara fram í San Antonio.

Jafnræði var á með liðunum í fyrsta leikhluta og leikmenn greinilega klárir í slaginn. Kóngurinn í Miami Lebron James leitaði meira eftir því að spila samherja sína inn í leikinn en að skora sjálfur.

Stigaskorið dreifðist því vel á milli leikmanna Miami Heat og náði liðið að nýta þá breidd sem það er með í raun og veru. Staðan var 22-22 eftir fyrsta leikhlutann og mikil spenna í American Airlines-höllinni.

Mario Chalmers, leikmaður Miami Heat, var magnaður í nótt og leiddi sóknarleik heimamanna eins og stórstjarna en þegar leið á leikinn náði Heat alltaf betri tökum á leiknum.

Liðið lék saman sem ein heild og fann San Antonio enginn svör við spilamennsku heimamanna. Gestirnir réðu lítið sem ekkert við frábæran varnarleik Miami Heat og fundi í raun aldrei taktinn í leiknum. Leikmenn San Antonio Spurs töpuðu hverjum boltanum og fætur öðru í hendurnar á leikmönnum Miami Heat en þetta varð gestunum að falli í leiknum.

Hraðar sóknir og vel skipulagður varnarleikur lagði gruninn að því að Miami Heat náði að jafna metin í einvíginu með 103-84 sigri. Staðan er því 1-1 í einvíginu en næstu þrír leikir fara fram í San Antonio. Það lið sem vinnur fyrr fjóra leiki verður NBA-meistari.

Mario Chalmers var atkvæðamestur í liði Miami Heat en hann gerði 19 stig. Lebron James var með 17 stig fyrir heimamenn. Chris Bosh, leikmaður Miami Heat, hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir dapra frammistöðu í úrslitakeppninni en hann átti ágætan leik í nótt og var með 12 stig og 10 fráköst. Danny Green var fínn í liði Spurs og gerði 17 stig.

Hér að ofan má sjá myndband af því helsta frá leiknum í nótt.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×