Körfubolti

Bird kominn aftur til Pacers

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Larry Bird hefur samþykkt að taka við gamla starfinu sínu hjá NBA-liðinu Indiana Pacers á ný eftir eins árs fjarveru.

Bird er að stærstum hluta eignað að hafa sett það lið saman sem náði alla leið í úrslitarimmu Austurdeildarinnar í vor. Þar tapaði liðið naumlega fyrir verðandi meisturum Miami Heat í sjö leikja seríu.

Bird tók sér frí til að sinna heilsunni en er nú reiðubúinn að snúa aftur. „Hann vann fullt af titlum sjálfur á sínum tíma og nú vil ég að hann vinni einn fyrir mig,“ sagði Herb Simon, eigandi Indiana, en sem leikmaður vann Bird þrjá titla með Boston Celtics.

„Hann er endurnærður og við góða heilsu. Hann er klár í slaginn,“ bætti Simon við.

Bird átti stóran þátt í því að fá leikmenn eins og Paul George, Roy Hibbert, Lance Stephenon, George Hill og David West til Indiana en allir eru þeir lykilmenn í dag. Fyrsta verkefni Bird verður væntanlega að tryggja að West verði áfram en hann er nú með lausan samning.

Indiana skortir þó breidd í sinn leikmannahóp til að geta náð enn lengra og mun Bird væntanlega leggja áherslu á að finna leikmenn sem geta stutt við hið öfluga byrjunarlið sem Indiana er með.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×