Körfubolti

Howard mun ræða við allt að tíu lið

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Howard treður yfir Tim Duncan
Howard treður yfir Tim Duncan MYND:NORDIC PHOTOS/GETTY
Miðherjinn Dwight Howard hjá Los Angeles Lakers í NBA körfuboltanum mun ræða við Lakers, Houston Rockets, Dallas Mavericks að minnsta kosti þegar hann má byrja að ræða við félög á morgun. Howard er með lausan samning og ætlar að skoða kosti sína vandlega.

Talið er að Howard hyggist fara vel yfir kosti sína og ræða við allt að tíu félög en líklegustu áfangastaðirnir eru Houston, Dallas, Atlanta og Los Angeles þar sem hann lék með Lakers á síðasta tímabili.

Velji Howard peningana er líklegt að hann leiki áfram með Lakers sem getur boðið honum fimm ára samning þar sem hann fær 30 milljónum dala meira en hin liðin geta greitt en þau mega aðeins bjóða fjögurra ára samning. Aftur á móti borga íþróttamenn mun lægri skatta í Texas en Kaliforníu og það gæti haft einhver áhrif á Howard.

Kobe Bryant hefur rætt við Howard og reynt að telja hann á að vera áfram í Los Angeles auk þess sem hinn goðsagnakenndi fyrrum þjálfari liðsins Phil Jackson hefur lagt sín lóð á vogarskálarnar.

Lykilmenn Houston James Harden og Chandler Parsons hafa einnig rætt mikið við Howard en Parsons og Howard eru miklir vinir. Houston ætlar einnig að beita Hakeem Olajuwon í viðræðunum við Howard en talið er líklegast að Howard fari til Houston ákveði hann að yfirgefa Los Angeles.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×