Valgerður og eiginmaður hennar, Arvid Kro, hafa verið að gera upp gamla íbúðarhúsið á Lómatjörn til að leigja út til ferðamanna og eru búin að setja upp nokkrar sturtur og heitan pott, einkum með gönguhópa í huga. Við ræddum við Valgerði og systur hennar, þær Sigríði og Guðnýju, á veröndinni við heimili hennar.
Í ljósi þess að Valgerður segist stoltust af því frá sínum stjórnmálaferli að hafa stuðlað að álverinu á Austurlandi var kannski ekki við því að búast að fyrsti gesturinn til að beiðast gistingar yrði Svandís Svavarsdóttir. Svandís dvaldi í tvær nætur með fjölskyldu sinni og sagði okkur að það hafi verið yndislegt.
Valgerður sagði að það hafi verið virkilega gaman að fá Svandísi í heimsókn og kvaðst ekki bera kala í brjósti til neins stjórnmálamanns. Meðan hún sat á þingi hafi ástandið aldrei verið svo slæmt að menn hafi ekki talast við. „Það eru bara allir velkomnir til mín," sagði Valgerður.
