Handbolti

Umfjöllun og viðtöl: Haukar - OCI Lions 36-33

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Haukar unnu nauman 36-33 sigur á OCI-Lions í fyrri leik liðanna í undankeppni EHF-bikars karla. Eftir að hafa leitt með sex mörkum þegar mest var í seinni hálfleik kom ágætis rispa gestanna á lokametrunum sem opnaði allt fyrir seinni leikinn á morgun.

Gestirnir frá Hollandi komu á fínu skriði inn í leikinn, þeir hafa unnið báða leiki sína í hollensku deildinni fram til þessa. Liðið endaði í öðru sæti á síðasta tímabili en töluverð breyting er á liðinu.

Haukar eru einnig að ganga í gegnum breytingar, Patrekur Jóhannesson er tekinn við liðinu af Aroni Kristjánssyni. Auk þess hafa lykilleikmenn á borð við Frey Brynjarsson, Gylfa Gylfason og Aron Rafn Eðvarðsson haldið á brott.

Heimamenn voru ryðgaðir í varnarleiknum í fyrri hálfleik. OCI-Lions leituðu mikið inn á línuna og gekk leikmönnum Hauka illa að stöðva það. Leikurinn var kaflaskiptur, bæði lið tóku ágætis rispur en náðu ekki að slíta sig frá andstæðingnum.

Sóknarleikur Hauka var fínn í hálfleiknum þrátt fyrir að Luuk Hoiting hafi staðið vakt sína vel í markinu náðu Haukar að skora 19 mörk í fyrri hálfleik en fengu á sig 18 og tóku því eins marks forskot inn í hálfleikinn.

Haukar byrjuðu seinni hálfleikinn betur og náðu sex marka forskoti þegar korter var eftir af leiknum auk þess að vera tveimur mönnum fleiri. Það virtist vera vakning fyrir gestina sem svöruðu með þremur mörkum í röð og héldu þeirri stöðu út leikinn.

Sterkur sigur fyrir Hauka sem unnu þrátt fyrir að lenda í miklum erfiðleikum varnarlega. Gestirnir einfaldlega völsuðu um að eigin vild á línu heimamanna og fyrir vikið var lítið um markvörslu frá markmönnum Hauka.

Sigurbergur Sveinsson var atkvæðamestur í liði Hauka með 12 mörk, þar af þrjú af vítalínunni. Árni Steinn Steinþórsson bætti við sjö mörkum og Tjörvi Þorgeirsson sex. Einar Ólafur Vilmundarsson og Giedrius Morkunas stóðu vaktina í marki Hauka og vörðu samtals 13 skot.

Patrekur: Menn voru stressaðir í upphafi leiks„Við sigruðum og náðum að skora mörg mörk, við höfum verið að vinna í sóknarleiknum og það virkaði vel í dag. Hinsvegar var mikið um grunnatriði sem voru að klikka hjá okkur," sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Hauka eftir leikinn.

„Við ætluðum að mæta þeim strax í byrjun en við komumst aldrei í takt varnarlega og þar af leiðandi var markvarslan undir meðallagi. Það er það sem við þurfum helst að laga úr þessu. Öll lið spila vel ef þau fá nógan tíma,"

Þetta var fyrri leikur liðanna af tveimur, liðin mætast aftur á morgun og taka Haukar þriggja marka forskot inn í þann leik.

„Miðað við þau myndbönd sem ég hef séð af liðinu spiluðu þeir vel, þeir eru komnir með nýja örfhenta skyttu sem ég hafði ekki séð. Það er aðeins hálfleikur en mér fannst við ekki spila nægilega vel í dag, kannski er það útaf ég reyndi að dreifa álaginu. Það er stutt í næsta leik sem er fínt, við mætum snemma í fyrramálið og kíkjum á þennan leik."

„Þetta var fyrsti leikurinn okkar og það sást á fyrstu mínútum leiksins, menn voru stressaðir. Við vissum fyrir leikinn að við þyrftum að stoppa línumanninn þeirra en hann spilaði vel og vann einvígið við vörnina okkar í dag. Hann var sterkari einn á einn en vonandi getum við bætt okkur í því fyrir morgundaginn,"

Stutt er í mót og Patreki fannst fínt að fá keppnisleik á þessum tímapunkti.

„Við höfum verið að spila hörkuleiki upp á síðkastið, í Hafnarfjarðarmótinu er aldrei gefin tomma eftir. En jújú, þetta var fyrsti leikur og maður sá það, sérstaklega varnarlega. Nú höfum við nokkra klukkutíma til að laga það og taka þessi nokkur auka skref sem við þurfum til að stoppa þá," sagði Patrekur.

Sigurbergur: Klassi að fá þessa leiki rétt fyrir mót„Við gáfum aðeins eftir í lokin. Það vantaði eitthvað upp á þetta í varnarleiknum allan tímann, einhvern talanda," sagði Sigurbergur Sveinsson, leikmaður Hauka eftir leikinn.

„Við leyfðum línumanninum hjá þeim að leika lausum hala mestan hluta leiksins og við eigum að geta gert miklu betur. Þetta var eiginlega skelfilegt á tímabili en við kíkjum betur á þetta og reynum að bæta þetta,"

„Meiri talandi, barátta og samvinna og þá ætti þetta að koma. Þetta er fyrsti alvöru leikurinn okkar og það er alveg eðlilegt að það sé smá skjálfti í okkur á fyrstu metrunum. Við unnum leikinn en við munum gera betur á morgun,"

Þetta var annar af tveimur leikjum liðanna og koma leikirnir rétt fyrir upphaf Olís-deildarinnar.

„Þetta eru leikir sem allir gefa sig 100% fram og það er klassi að fá tvo svona leiki korter fyrir mót. Núna er bara að nærast vel, ísbað og hvílast vel fyrir morgundaginn," sagði Sigurbergur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×