Íslenski boltinn

Hannes: Þvílík hamingja þegar hann flautaði leikinn af

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hannes Þór Halldórsson.
Hannes Þór Halldórsson. Mynd/Daníel
Hannes Þór Halldórsson, markvörður íslenska landsliðsins, var kátur eftir 2-1 sigur á Albaníu á Laugardalsvellinum í kvöld en þessi þrjú stig skila íslenska liðinu upp í annað sætið í undankeppni HM í Brasilíu.

"Mér líður fáránlega vel enda er þetta eins frábært og það getur orðið. Við erum ótrúlega ánægðir með þetta," sagði Hannes Þór Halldórsson eftir leik. Hann hafði fengið fjögur mörk á sig í tveimur leikjum í röð en það var mikil bæting á því í kvöld.

"Við vorum hrikalega öflugir og þetta var einn besti leikurinn okkar í undankeppninni ef ekki sá besti. Mér fannst við vera með tökin á leiknum allan tímann og við hefðum getað sett fleiri mörk á þá. Við héldum þeim vel frá markinu okkar og vorum virkilega flottir," sagði Hannes.

Íslenska liðið náði ekki að skora þriðja markið og því var spennan í leiknum allt til enda.

"Menn héldum Albönum vel í skefjum en ég var aldrei rólegur því þetta er fljótt að gerast. Það getur ýmislegt gerst í svona bleytu en við vorum að halda þeim vel frá markinu. Þetta hafðist að lokum og það ver þvílík hamingja þegar hann flautaði leikinn af," sagði Hannes.

"Við fegnum að sjá stöðuna í riðlinum inn í klefa og þetta lítur vel út. Það er gaman að vera í öðru sæti og við erum í nokkuð góðum málum fyrir tvo síðustu leikina. Það er í okkar höndum að landa öðru sætinu. Það er því virkilega skemmtileg staða sem er komin upp," sagði Hannes en sá hann þessa stöðu fyrir þegar undankeppnin hófst?

"Það getur brugðið til beggja vona í þessu. Við erum með sterkt lið og við vissum það. Þetta er það sem var lagt upp með þegar við fórum inn í keppnina. Við ætluðum að gera atlögu að efstu tveimur sætunum. Við erum búnir að gera þetta vel í keppninni og erum búnir að vinna fyrir þessarri stöðu. Nú er bara að halda áfram," sagði Hannes.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×