Fótbolti

Tvær breytingar: Alfreð inn fyrir Eið Smára - Ólafur Ingi í bakverðinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Finnbogason.
Alfreð Finnbogason. Mynd/Vilhelm
Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu hefur tilkynnt byrjunarliðið sitt fyrir fyrri umspilsleikinn á móti Króatíu sem hefst á Laugardalsvellinum klukkan 19.00. Lagerbäck gerir tvær breytingar á liði sínu frá því í undanförnum leikjum.

Eiður Smári Guðjohnsen missir sæti sitt í liðinu og í hans stað verður Alfreð Finnbogason, markahæsti leikmaður hollensku úrvalsdeildarinnar, í framlínunni ásamt Kolbeini Sigþórssyni. Íslenska byrjunarliðið hafði verið óbreytt í þremur síðustu landsleikjum og skipað þá sömu mönnum og náðu jafnteflinu í síðari hálfleiknum á móti Sviss.

Ólafur Ingi Skúlason verður í hægri bakverðinum í leiknum en það var allaf ljóst að Lars yrði að gera breytingu á varnarlínunni því Birkir Már Sævarsson tekur út leikbann í leiknum í kvöld.

Heimir Hallgrímsson, aðstoðarmaður Lagerbäck, fór yfir byrjunarliðið á fundi með Tólfunni, stuðningsmannaklúbbi íslenska landsliðsins, en meðlimir Tólfunnar fengu fyrstir allra utan liðsins að vita hvaða ellefu leikmenn hann og Lars ætla að treysta á í þessum gríðarlega mikilvæga landsleik.

Þetta er fyrsti leikur Alfreðs Finnbogasonar í byrjunarliðinu síðan í vináttulandsleik á móti Færeyjum í ágúst en hann skoraði síðast þegar hann var í byrjunarliðinu í keppnisleik (í júní á móti Slóveníu).

Ólafur Ingi Skúlason var síðast í byrjunarliðinu í vináttulandsleik á móti Andorra í nóvember í fyrra ehn hann byrjaði síðast í keppnisleik á móti Danmörku 4. júní 2011.



Byrjunarlið Íslands á móti Króatíu:

Markvörður:

Hannes Þór Halldórsson

Hægri bakvörður:

Ólafur Ingi Skúlason

Miðverðir:

Kári Árnason og Ragnar Sigurðsson

Vinstri bakvörður:

Ari Freyr Skúlason  

Hægri kantmaður:

Jóhann Berg Guðmundsson

Miðjumenn:

Aron Einar Gunnarsson (fyrirliði) og Gylfi Þór Sigurðsson

Vinstri kantmaður:

Birkir Bjarnason

Framherjar:

Alfreð Finnbogason

Kolbeinn Sigþórsson




Fleiri fréttir

Sjá meira


×