Fótbolti

Ísland niður um fjögur sæti á FIFA-listanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Mynd/NordicPhotos/Getty
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta er í 50. sæti á Styrkleikalista FIFA sem var gefinn út í morgun en íslenska liðið lækkar um fjögur sæti frá því á listanum sem var gefinn út í október.

Íslenska landsliðið gerði jafntefli í fyrri umspilsleiknum á móti Króatíu en það dugði þó ekki til að halda 46. sætinu. Króatar unnu seinni leikinn og komust á HM en króatíska landsliðið er sextánda sæti og fór upp um tvö sæti.

Ísland hækkaði sig um átta sæti þegar listinn var gefinn út í október og um sextán sæti þegar listinn var gefinn út í september. Íslenska landsliðið lækkaði síðast á listanum í júlí síðastliðnum.

Spánn, Þýskaland, Argentína og Kólumbía eru áfram í fjórum efstu sætunum en Portúgal hækkaði sig um níu sæti og fór alla leið upp í fimmta sætið. Brasilíumenn komst einnig inn á topp tíu en þeir eru í 10. sæti listans.

Belgar falla um sex sæti niður í 11. sætið og Englendingar eru komnir niður í þrettánda sæti eftir töp á heimavelli á móti Síle og Þýskalandi.  

Danir eru nú efstir Norðurlandaþjóða en þeir fóru upp fyrir Svía og upp í 25. sætið. Svíar eru í 27. sæti, Ísland er í 50. sæti og Noregur féll um sjö sæti og alla leið niður í sæti 54.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×