Mannréttindadómstóll Evrópu mun taka fyrir mál Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, gegn íslenska ríkinu vegna Landsdómsmálsins.
Íslenskum stjórnvöldum ber að svara spurningum um málsmeðferðina og gefa svar fyrir 6. mars á næsta ári.
Innanríkisráðuneytinu barst erindi Mannréttindadómstóls Evrópu þess efnis að kæra Geirs H. Haarde gegn íslenska ríkinu sé til meðferðar hjá dómstólnum, en þetta kemur fram í frétt á vef ráðuneytisins.
Íslenskum stjórnvöldum er gert að útvega dómstólnum enska þýðingu af niðurstöðum Landsdóms í máli gegn Geir H. Haarde, sem og öðrum ákvörðunum eða niðurstöðum tengdum málinu.
Mannréttindadómsstóll Evrópu veitir ríkinu frest til 6. mars árið 2014 til að skila inn skriflegri greinagerð í málinu.
Erindið var kynnt á ríkisstjórnafundi í morgun en ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytisins fer með formlegt fyrirsvar vegna mála sem rekin eru gegn Íslandi fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu.
Mannréttindadómstóll Evrópu tekur fyrir mál Geirs H. Haarde
Stefán Árni Pálsson skrifar
