Handbolti

Eyjamenn án Drífu út leiktíðina

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Drífa Þorvaldsdóttir.
Drífa Þorvaldsdóttir. Mynd/Vilhelm
Drífa Þorvaldsdóttir, hægri skytta ÍBV í Olísdeildinni, leikur ekki meira með liðinu í vetur. Drífa er ófrísk og tilkynnti liðsfélögum sínum gleðitíðindin á dögunum.

„Hún skilur eftir sig mjög stórt skarð í okkar liði og spilaði ekki gegn Stjörnunni. Við nýtum pásuna í að finna einhverjar lausnir við þessu en Drífa er búin að vera mjög sterk í vetur. Það sýnir hvað við missum sterkan leikmann að hún var valin í A-landsliðið fyrr í mánuðinum,“ segir Svavar Vignisson, þjálfari ÍBV, í samtali við Eyjafréttir.

Svavar segir að Drífa sé fimmti leikmaðurinn sem tilkynni honum að hún sé ófrísk síðan hann tók við liðinu.

„Eins skemmtilegt og gleðilegt og þetta er, þá er þetta farið að verða svolítið þreytandi fyrir þjálfarann. Við erum með svo lítinn hóp og megum ekki við svona rugli,“ sagði Svavar léttur.

Drífa spilar stöðu hægri skyttu og segir Svavar að verið sé að skoða nokkra möguleika til að fylla í skarð Drífu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×