Sport

Meistaradeildin í hestaíþróttum 2014 í beinni á Stöð 2 Sport

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Meistaradeildin í hestaíþróttum og 365 miðlar skrifuðu í dag undir samstarfssamning um að Stöð 2 Sport verði með beinar útsendingar frá mótaröð Meistaradeildarinnar í hestaíþróttum árið 2014.

Hér er um að ræða tímamótasamning hvað varðar allan fréttaflutning af keppninni og umfjöllun um hestamennsku. Með samningi þessum er verið að færa hestamennskuna í sjónvarpi og vef upp á nýtt plan þar sem tryggð verða hámarksgæði á útsendingunum.  Öll keppnisröðin verður sýnd í beinni útsendingu á Stöð 2 sport sem og í gegnum netið í háskerpugæðum fyrir alla hestaunnendur bæði nær og fjær.   

Stöð2 Sport mun einnig verða með sérstaka umræðuþætti um keppnisröðina áður en keppnistímabilið 2014 hefst og þá fer einnig fram umræðuþáttur á stöðinni eftir hverja keppni í vetur.

Samstarfsamningurinn var undirritaður í dag á Nauthól við Nauthólsvík en eftir undirritun sýndu nokkrir gæðingar listir sínar í snjónum.

Á mótaröðinni í Meistaradeildinni í hestaíþróttum er keppt í fjórgangi, fimmgangi, gæðingafimi, tölti, skeiðgreinum úti, saktaumatölti og skeiði en hún fer fram í Ölfushöllinni. Fyrst verður keppt í fjórgangi 23. janúar næstkomandi.

Guðmundur F. Björgvinsson vann einstaklingskeppnina í Meistaradeildinni 2013 með 47,5 stig en hann var einnig valin fagmannlegasti knapinn af áhorfendum. Lið Top Reiter/Ármóts sigraði liðakeppnina og var einnig valið skemmtilegasta liðið af áhorfendum.

Hér er hægt að fá upplýsingar um keppni í Meistaradeildinni í hestaíþróttum.

Mynd/Daníel
Mynd/Daníel
Mynd/Daníel
Mynd/Daníel
Mynd/Daníel
Mynd/Daníel



Fleiri fréttir

Sjá meira


×