Tónlist

Eyþór Ingi leiðbeinir litlu systur í söngnum

Tinna Rós skrifar
Ellen Ýr og Eyþór Ingi eru náin systkini og hún leitar óspart eftir aðstoð og stuðningi hjá honum, bæði í tónlistinni og öðru.
Ellen Ýr og Eyþór Ingi eru náin systkini og hún leitar óspart eftir aðstoð og stuðningi hjá honum, bæði í tónlistinni og öðru. Mynd/Gunnlaugur Antonsson

„Ég var hræddari við samanburðinn þegar ég var yngri og hugsaði mikið út í það hvort ég gæti orðið jafn góður söngvari og Eyþór. Ég lít mikið upp til hans og hef alltaf gert en nú er ég komin yfir það að bera mig saman við hann. Ég sé hann frekar sem minn læriföður og er gríðarlega stolt af því, enda ekki annað hægt,“ segir Ellen Ýr Gunnlaugsdóttir.

Ellen Ýr er yngri systir Eurovision-farans Eyþórs Inga og upprennandi söngkona. Hún hefur verið að færa sig hægt og rólega upp á skaftið í tónlistinni frá því að hún lenti í þriðja sæti í söngkeppni Verkmenntaskólans á Akureyri í fyrra. Rétt eins og bróðir hennar hefur hún aldrei lært söng en æfði á þverflautu í nokkur ár og er nú byrjuð að taka upp gítarinn í rólegheitum. „Það hefur alltaf verið mikil tónlist á heimilinu okkar. Pabbi er algjör rokkari en mamma meira í Elvis Presley og honum líkum. Það er mikil tónlist í þeim en afi okkar í móðurætt er rosalegur músíkant. Svo var reyndar afi í föðurættina líka mikill söngmaður,“ segir Ellen Ýr en Eyþór Ingi hefur einmitt líka sagst hafa tónlistargenin frá öfum sínum.

Yngri systir þeirra, Elísa Rún, er líka efnileg söngkona þó Ellen segi hana feimna við að koma fram. Eyþór Ingi hefur oft verið nefndur besti söngvari þjóðarinnar og segir Ellen gott að hafa hann á kantinum. „Við erum rosalega náin og getum alltaf talað saman um hvað sem er. Hann er eiginlega eins og besta vinkona mín,“ segir hún og hlær. „Við erum samt líka mjög gagnrýnin hvort á annað sem ég met mikið.

Þegar ég prufa eitthvað nýtt í söngnum þá nýti ég mér það til dæmis óspart að senda það á hann og hann sendir mér svo ábendingar til baka,“ bætir hún við. Ellen útskrifaðist sem stúdent og sjúkraliði á dögunum og fékk ýmsar tónlistagræjur í útskriftagjöf svo hún hefur varla hætt að syngja síðan. Hún stefnir suður til Reykjavíkur í haust þar sem hún ætlar í nám í Snyrtiskólanum. „Það er auðvitað draumurinn að fá tækifæri til að syngja meira og aldrei að vita hvað framtíðin ber í skauti sér,“ segir hún.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×