Tónlist

Það er hundaæði á Íslandi

Freyr Bjarnason skrifar
Myndband við Glaðasta hund í heimi hefur verið skoðað yfir 100 þúsund sinnum á Youtube.
Myndband við Glaðasta hund í heimi hefur verið skoðað yfir 100 þúsund sinnum á Youtube. fréttablaðið/valli
„Það er hundaæði á Íslandi,“ segir dr. Gunni, spurður út í vinsældir lagsins Glaðasti hundur í heimi.

Myndband við lagið hefur verið skoðað yfir eitt hundrað þúsund sinnum á síðunni Youtube. Lagið er það mest selda á Tonlist.is og er í öðru sæti á vinsældarlista Rásar 2. Einnig er það bæði á vinsældarlistum Bylgjunnar og FM 957.

„Maður rennir alltaf blint í sjóinn með þessi lög sín. Stundum gerist ekki neitt en einstaka sinnum hittir maður á eitthvað svona sem virkar,“ segir dr. Gunni um lagið sitt. Ýmsir hafa tjáð sig um það á Youtube og sum ummælin eru ekki eins gleðileg og önnur.

„Það er alls konar neikvæðni hjá einhverjum gelgjuunglingum. Maður reynir að sleppa því að lesa það til að það eyðileggi ekki fyrir manni daginn.“

Myndband með dansinum sem Jóhann Örn Ólafsson samdi við lagið hefur verið skoðað um 40 þúsund sinnum á Youtube og segist dr. Gunni vera búinn að læra dansinn í viðlaginu. „Þetta er mjög góður dans.“

Aðspurður hvort Glaðasti hundur í heimi muni slá barnalagi hans, Prumpufólkinu, við í vinsældum segir hann: „Það kemur í ljós í desember 2014 þegar ég fæ stefgjöldin.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×